Fjölgun á við tvær legudeildir

Landspítalinn
Landspítalinn mbl.is/Ómar

Fjölgun sjúklinga sem lágu inni á Landspítalanum fyrstu átta mánuði ársins jafngildir sem nemur tveimur legudeildum. Þetta kemur fram í föstudagspistli Björns Zoega, forstjóra spítalans. Birtist pistillinn á heimasíðu Landspítalans.

Vitnar hann þar í starfsemistölur spítalans sem birtar verða í næstu viku. Segir Björn tölurnar staðfesta tilfinningu starfsfólks.

Inniliggjandi sjúklingar eru að meðaltali 41 fleiri á hverjum degi en í fyrra og er það fjölgun um 8,1%. Til að setja það í samhengi er það á við tvær legudeildir á spítalanum.

Þá hafa talsvert fleiri leitað á bráðamóttökur spítalans og munar þar mest um 4.791 fleiri komur á bráðamóttöku í Fossvogi. Er það rúmlega tíu prósenta fjölgun. Skurðaðgerðum hefur fjölgað um næstum 4% miðað við sama tímabil í fyrra.

Rekstrarniðurstaða fyrir fyrstu 8 mánuði ársins liggur fyrir og er spítalinn enn innan ramma fjárlaga með u.þ.b. 10 milljóna kr. afgang.

„Það er augljóst að þetta er ótrúlegur árangur hjá starfsfólki spítalans; að eftir 4 ár í niðurskurði (samtals 23% síðan 2007) skulum við geta haldið okkur innan rekstrarramma fjárlaga og aukið framleiðslu umtalsvert í leiðinni,“ segir Björn í niðurlagi pistilsins.

Föstudagspistill forstjóra Landspítalans.

Björn Zoega, forstjóri LSH.
Björn Zoega, forstjóri LSH.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert