Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga

Grafreitur Siðmenntar. Lífsskoðunarfélög á borð við Siðmennt hafa kvartað undan …
Grafreitur Siðmenntar. Lífsskoðunarfélög á borð við Siðmennt hafa kvartað undan ójafnræði í lögum um skráð trúfélög.

Unnið er að frumvarpi í innanríkisráðuneytinu um breytingar á lögum um skráð trúfélög til þess að tryggja jafnræði lífsskoðunarfélaga og trúfélaga. Verður það lagt fram á komandi þingi. Kemur þetta fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Baldurs Þórhallssonar, þingmanns Samfylkingarinnar.

Í svarinu kemur fram að ráðuneytið hafi haft til skoðunar þau sjónarmið sem sett hafa verið fram um að ójafnræði sé í því fólgið að félögum sem aðhyllast tiltekin trúarbrögð sé heimiluð formleg skráning á grundvelli laga um skráð trúfélög, nr. 108/1999, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir, en að sama eigi ekki við um svokölluð lífsskoðunarfélög sem ekki aðhyllast trúarlegar kennisetningar en miða starfsemi sína við siðferðisgildi og mannrækt.

Á það hafi verið bent að stjórnvöld styrki enn fremur eiginleg trúfélög beint með innheimtu sóknargjalda en veraldleg lífsskoðunarfélög, sem vilja veita sömu þjónustu til sinna félagsmanna, fái engan stuðning.    

Segir enn fremur í svarinu að ráðuneytið telji mikilvægt að þessi umræða fari fram og það hafi í hyggju að leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um skráð trúfélög á komandi löggjafarþingi, sem og öðrum lögum eftir því sem við á, en markmið þeirra breytinga yrði að tryggja jafnræði hvað þetta varðar.

Svar innanríkisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka