„Þetta er fólk sem átti litlar upphæðir sem hafa glatast. Svo er þarna á ferð fólk sem af stolti sínu átti upphafleg bréf í Eimskipafélagi Íslands og sá þau allt í einu hverfa,“ segir Ólafur Kristinsson, héraðsdómslögmaður, um viðbrögð við áskorun hans um vitnamál gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni vegna falls Landsbankans.
Eins og fram hefur komið á fréttavef Morgunblaðsins birtist í vikunni heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu þar sem kom fram að fyrrverandi hluthafar í Landsbankanum ynnu nú að undirbúningi vitnamáls gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni, fyrrverandi eiganda bankans.
Ólafur Kristinsson lögmaður var skráður fyrir auglýsingunni en þar sagði að hluthafar tæplega 3% hlutafjár Landsbankans fyrir fall bankans hefðu staðfest stuðning sinn við málið og væntanlegur rekstur þess hefði þegar verið fjármagnaður.
Lífeyrissjóðir sýna áhuga
Ólafur segir fjölda fólks hafa lýst yfir stuðningi við hópmálsókn gegn Björólfi.
„Ég hef einnig fengið stuðningsyfirlýsingu frá tveim lífeyrissjóðum og mun fá svar frá stórum lífeyrissjóðum fyrir eða rétt eftir helgina. Ég er að skora á fólk að hafa samband og lýsa yfir stuðningi við að reyna að ná fram einhverjum skaðabótum, eða réttlæti. Til að byrja með á að fara í vitnamál. Þetta felur ekki í sér neinar fjárhagslegar skuldbindingar. Eftir því sem fleiri taka þátt í áskorun um að fara í vitnamál þeim mun meira vægi hefur hún fyrir dómi.“
Ólafur segir sem fyrr segir að margir hafi haft samband út af áskoruninni.
„Þetta er fólk sem átti litlar upphæðir sem hafa glatast. Svo er þarna á ferð fólk sem af stolti sínu átti upphafleg bréf í Eimskipafélagi Íslands og sá þau allt í einu hverfa. Svo hafa margir eldri borgarar sett sig í samband við mig sem hafa tapað háum fjárhæðum. Til mín hafa einnig komið tveir lífeyrissjóðir sem og fulltrúi fimm stórra lífeyrissjóða,“ segir Ólafur.