„Þetta er ekki rétt. Efnahagslegur ávinningur af Kárahnjúkavirkjun er og var umdeildur,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, í tilefni af þeim skrifum Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, að efnahagslegur ávinningur af framkvæmdum í þágu orkusölu hafi verið óumdeildur.
Gagnrýnir Árni þau skrif ráðherrans að „í mati á umhverfisáhrifum stórframkvæmda [hafi] verðmæti víðerna, útsýnis og landslagsheilda verið vanmetið, á meðan að efnahagslegur ávinningur af framkvæmd í þágu orkusölu hefur verið augljós og óumdeildur“.
Árni setur skrif ráðherrans í samhengi við fyrirhuguð jarðarkaup Kínverjans Huang Nobu á Grímsstöðum á Fjöllum.
„Áhugi Huang Nobu á jarðakaupum segir eitthvað um verðmæti ósnortins lands, í nágrenni helstu náttúruundra landsin og stærsta þjóðgarðs Evrópu, en til er hagfræðileg aðferð sem kallast skilyrt verðmætamat og notuð er víða til að meða verðgildi ósnortinna víðerna.
Í stuttu máli byggir aðferðin á að gerð er könnun meðal almennings í viðkomandi landi og spurt hversu mikið fé værir þú til í að greiða árlega fyrir verndun ákveðins svæðis. Til dæmis 1.000 krónur, 3.000 krónur eða 5.000 krónur á ári. Út frá niðurstöðunni má síðan reikna verðmæti landsvæðisins. Enginn á það en virði þess er þá þekkt,“ segir Árni Finnsson.