Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir hvalveiðar á Íslandi varla sjálfbærar. Þá skili hvalveiðar og útflutningur á hvalkjöti hverfandi tekjum í þjóðarbúið. Sá ávinningur sé „ekki sem nokkru nemur“ í hinu stóra efnahagslega samhengi.
Þetta kom fram í morgunviðtali Rásar 2 við Svandísi í dag.
En Barack Obama Bandaríkjaforseti tjáði sig um hvalveiðar Íslendinga á Bandaríkjaþingi í gær með þeim orðum að bandarískir embættismenn skyldu íhuga hversu viðeigandi það væri að ferðast til Íslands í ljósi veiðanna. Þá skyldu bandarískir embættismenn taka málið upp þegar þeir hefðu tækifæri til á fundum með íslenskum embættismönnum.
Segir forsetadeiluna „stórmál“
Svandís var einnig spurð út í forsetadeiluna og komst hún þá svo að orði að deilan væri „stórmál“ og „prinsippmál“. Það væri alvarlegt mál að forsetinn stígi inn á verksvið réttkjörinna stjórnvalda með ummælum um frammistöðu þeirra undanfarið.
Slík framkoma væri „ekki ásættanleg“ af hálfu forsetans.
„Mér finnst þetta vont mál og mér ástæða til að bregðast við,“ sagði Svandís í samtali við Rás 2. Sagði hún forsetann jafnframt hafa „vegið mjög hressilega“ að Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra.