Alþingi var slitið rétt fyrir klukkan 18.00. Þá höfðu þingmenn samþykkt ný sveitarstjórnarlög með 42 samhljóða atkvæðum en einn greiddi ekki atkvæði. Einnig voru lög um greiðsluþjónustu samþykkt en afgreiðslu þingsályktunartillögu um heimild til staðgöngumæðrunar var frestað til næsta þings.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði að sveitastjórnarlögin væru vitnisburður um gott samstarf sveitarfélaganna í landinu og Alþingis og verið væri að stíga stór framfararskref.
Þá voru lög um greiðsluþjónustu samþykkt með 43 samhljóða atkvæðum. Einn greiddi ekki atkvæði.
Einnig var ákveðið að þingsályktunartillaga um heimild til staðgöngumæðrunar skyldi lögð fram að nýju í upphafi nýs þings í október. Ragnheiður Elín Árnadóttir, flutningsmaður tillögunnar, sagðist vera óþreyjufull að sjá hvernig Alþingi Íslendinga tæki á því álitamáli hvort heimila eigi staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.
„Ég er hundfúl yfir því að þetta mál komi ekki til lokaafgreiðslu í dag,“ sagði hún og bætti við að hún skyldi sjá til þess að málið yrði lagt fram í upphafi þingsins og að málinu yrði gefinn sá tími sem þurfi til að ólík sjónarmið og skoðanir fái að koma í ljós.
„Septemberfundirnir hafa verið átakameiri en flestir áttu von á,“ sagði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, skömmu áður en þinginu lauk laust fyrir kl. 18. Hún talaði um að stutt væri til nýs þings, 140. löggjafarþings, sem muni marka skil í starfsháttum Alþingis og hét hún á þingmenn að sameinast um að tryggja árangursríka framkvæmd þeirra.