Sala á lambakjöti var 15,5% minni í sumar en í fyrrasumar. Þetta kemur fram í tölum um framleiðslu og sölu á kjöti sem Bændasamtökin taka saman. Í lok ágúst voru til birgðir af lambakjöti í landinu sem samsvara tveggja vikna sölu.
Í júní, júlí og ágúst í fyrra seldust um 1.680 tonn af lambakjöti sem er svipað og seldist yfir sumarmánuðina árið 2009. Í þessa þrjá sumarmánuði í ár seldust hins vegar um 1.420 tonn. Samdrátturinn er 260 tonn eða 15,5%.
Fram kemur í tölunum að í lok ágúst voru birgðir af lambakjöti í landinu 226 tonn sem er 54% minna en í fyrra. 226 tonn jafngildir um tveggja vikna sölu á lambakjöti. Sauðfjárslátrun hófst um mánaðamótin ágúst/september.
Sala á kjöti dróst saman í sumar borið saman við fyrrasumar. Samdrátturinn er samtals 6,9%, en neysla dróst saman í öllum kjöttegundum nema hrossakjöti.