Borgarfulltrúum fjölgað í 23

Borgarfulltrúum í Reykjavík verður fjölgað úr 15 í a.m.k. 23.
Borgarfulltrúum í Reykjavík verður fjölgað úr 15 í a.m.k. 23. mbl.is / Hjörtur

Borgarfulltrúum í Reykjavík mun fjölga úr 15 í a.m.k. 23 frá og með 2018. Ennfremur mun bæjarfulltrúum í Garðabæ fjölga úr 9 í 11. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, gagnrýnir harðlega breytingar á sveitarstjórnarlögum, en hann vildi að borgarfulltrúum í Reykjavík yrði fjölgað úr 15 í 61.

Breyting á sveitarstjórnarlögum felur í sér að þegar íbúafjöldi sveitarfélags hefur í fjögur ár farið upp fyrir tiltekin mörk þá eigi að fjölga fulltrúum í sveitarstjórnum. Þetta þýðir að Reykjavík og Garðabær þurfa að fjölga sínum fulltrúum, en breytingin á að gerast í síðasta lagi fyrir kosningarnar 2018.

Núna eru um 8.000 kjósendur á bak við hvern borgarfulltrúa í Reykjavík, en hins vegar eru að meðaltali 5.000 kjósendur á bak við hvern þingmann sem situr á Alþingi. Um 2.800 kjósendur eru á bak við hvern bæjarfulltrúa í Kópavogi og um 1.600 á bak við hvern bæjarfulltrúa á Akureyri.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, gagnrýnir harðlega þá breytingu sem gerð var á sveitarstjórnarlögum og segir að fjölgun fulltrúa í sveitarstjórnum sé alls ekki næg. Hreyfingin lagði til að borgarfulltrúar í Reykjavík yrðu 61.

„Í frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga sem samþykkt voru á síðasta degi þingsins sl. laugardag fólst gullið tækifæri til að koma stöðu sveitarstjórnarstigsins á Íslandi í svipað horf hvað lýðræðislegt umboð varðar og er í nágrannalöndunum. Þetta tækifæri fór algerlega forgörðum og við sitjum uppi með niðurstöðu þar sem sveitarstjórnarstigið er enn það ólýðræðislegasta, ekki bara miðað við öll Norðurlöndin heldur einnig miðað við öll lönd í Norður- og Vestur-Evrópu.

Framhald mun því verða á þeim fámennis- og klíkustjórnmálum sem einkennt hafa sveitarstjórnir á Íslandi undanfarna áratugi, fyrirkomulagi sem hefur reynst illa, alið á spillingu og kostað íbúa sveitarfélaganna stórfé enda er stór hluti sveitarfélaga á vonarvöl og jafnvel gjaldþrota vegna gerræðislegra fámennisákvarðana í skipulags- og fjármálum. Þetta þarf kannski ekki að koma mikið á óvart því fjórflokkurinn hegðar sér ekkert öðruvísi á sveitarstjórnarstiginu en á Alþingi og öllum tillögum um að draga úr völdum þessa mesta meins samfélagsins er mætt með mikilli andstöðu af hans hálfu,“ segir Þór á bloggsíðu sinni.

Bloggsíða Þórs Saari

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert