Góðir gestir frá Frakklandi komu í Fræðasetrið í Sandgerði laugardaginn 17. september en daginn áður voru 75 ár liðin frá því að franska rannsóknaskipið Pourquoi pas? fórst við Mýrar í Borgarfirði og allir fórust nema einn maður.
Frú Anne-Marie Vallin-Charcot, sem er barnabarnn hins fræga dr Jean-Baptiste Charcot sem var leiðangursstjóri í hinni örlagaríku ferð 16. september 1936, fór fyrir hóp úr hollvinafélagi Charcot í Frakklandi sem komu færandi hendi því í för með þeim var dr Oliver Garandeau, sem er virtur læknir og portrett-málari í Frakklandi. Hann færði sýningunni Heimskautin heilla stórt olíumálverk af dr. Charcot. Málverkið er 165x 123 cm.
Reynir Sveinsson forstöðumaður Fræðasetursins tók við gjöfinni og flutti ávarp. Til máls tók frú Anne-Marie Vallin Charcot, sem oft hefur komið hingað. Hún sagði að það væri eins og að koma heim að koma á sýninguna.