Útlit er fyrir að meginhlutinn af þeim 6.700 tonnum af plasti sem íbúar höfuðborgarsvæðisins henda í ruslið á hverju ári verði áfram urðaður í Álfsnesi, þrátt fyrir að sveitarfélögin á svæðinu ætli á næsta ári að koma fyrir endurvinnslutunnum við heimili.
Allt stefnir nefnilega í að aðeins verði safnað pappír og pappa í tunnurnar, a.m.k. næstu misserin. Þó hafa einkafyrirtæki boðið fólki upp á endurvinnslutunnur sem m.a. taka við plasti.
Ef öllum íbúum á höfuðborgarsvæðinu yrði gert að flokka plastið og setja í plastpoka sem síðan færu í sömu endurvinnslutunnu og pappírinn og pappinn er talið að slíkt gæti skilað um 5.500 tonnum af plasti og megnið af því mætti nýta til endurvinnslu. Plastið yrði þó fyrst að flokka frá pappírnum á móttökustöð, s.s. í Sorpu.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir, að færar séu ýmsar leiðir til slíkrar flokkunar og hafi meðal annars verið kannað hver kostnaðurinn er við að flokka plastið með handafli, líkt og þegar er gert hjá tveimur einkafyrirtækjum í þessum geira, eða flokka það með vélum.