Segir að stjórnsýslan muni batna

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði þegar ný lög um stjórnarráðið voru samþykkt að hún myndi fylgja lögunum eftir með breyttum vinnubrögðum og betri stjórnsýslu.

„Ég fagna þeim merku tímamótum, sem samþykkt nýrra laga um Stjórnarráð Íslands sannarlega eru, bæði sem mikilvægur þáttur í endurreisnarferli stjórnsýslunnar eftir hrun og ekki síður í nútímavæðingu og endurbótum á Stjórnarráðinu, sem burðarás í stjórnsýslunni hér á landi. Með lögunum er lagður grunnur að einhverjum umfangsmestu breytingum á Stjórnarráði Íslands sem ráðist hefur verið í,” sagði Jóhanna þegar lögin höfðu hlotið samþykki á Alþingi.

Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu er farið yfir helstu breytingar sem verða með lögunum.

Undirstrikað er að ráðherrar sækja umboð sitt til Alþingis í samræmi við þingræðisregluna sem er grundvallarregla í stjórnskipun landsins.

Verulega er aukið svigrúm stjórnvalda til að ákveða hvaða ráðuneyti skuli starfrækt á hverjum tíma.

Heiti ráðherra og ráðuneyta í öðrum lögum er fellt brott. Sveigjanleiki í ráðherraskipan er því aukinn.

Skylda ráðherra til samhæfingar þegar málefni og málefnasvið skarast er fest í lög. Kveðið er á um skyldu ráðherra til að leitast við að samhæfa stefnu sína og aðgerðir þegar málefni og málefnasvið þeirra skarast.

Hlutverk og skylda forsætisráðherra til að hafa frumkvæði að samhæfingu starfa á milli ráðherra ef á þarf að halda fest í lög. Jafnframt er kveðið á um hlutverk forsætisráðherra og forsætisráðuneytisins í tengslum við gerð ýmissa leiðbeininga og setningu reglna til að samhæfa og samræma störf ráðuneyta.

Skilgreint er nánar hvaða málefni ráðherrum er skylt að bera upp í ríkisstjórn. 

Kveðið er á um störf og starfsemi ráðherranefnda. Skerpt á skyldu ráðuneyta til skráningar upplýsinga, m.a. á fundum ríkisstjórnar og ráðherranefnda, kveðið á um skráningu formlegra samskipta milli ráðuneyta og aðila utan þess auk þess sem mælt er fyrir um hljóðritun ríkisstjórnarfunda.

Stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra með undirstofnunum, sjálfstæðum stofnunum og eignum ríkisins eru lögfestar. 

Skylda til að fela hæfnisnefndum að meta hæfni umsækjanda um æðstu stöður innan Stjórnarráðsins er fest í lög.

Skylda starfsmanna ráðuneyta til að veita ráðherra réttar upplýsingar og faglega ráðgjöf er lögfest. Sveigjanleiki í starfsmannahaldi aukinn. 

Pólitísk stefnumótun í ráðuneytum er efld með auknum heimildum ráðherra til að ráða til starfa í ráðuneytum sínum aðstoðarmenn sem gegna störfum svo lengi sem ráðherra ákveður en þó ekki lengur en ráðherrann sjálfur. 

Forsætisráðherra er falið að móta málstefnu fyrir Stjórnarráðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert