Íbúar Austur-Barðastrandarsýslu og aðrir áhuga- og hagsmunaaðilar um vegabætur á vegi nr 60, Vestfjarðavegi, fjölmenntu í Bjarkalund í kvöld á fund með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra.
Talsverðra vonbrigða gætti í málflutningi heimamanna er þeir tjáðu sig um svokallaða leið Ö, sem er málamiðlunartillaga ráðherra eftir að hafa haldið allmarga fundi á samráðsvettvangi um málið. Gengur tillagan út á vegabætur á Ódrjúgshálsi og Hjallahálsi og seinna meir göng gegnum Hjallaháls.
Ögmundur lagði þunga áherslu á að hann teldi að hlutfallslega meira fé ætti að renna til vegabóta á Vestfjörðum en annars staðar á landinu. „Nú förum við að koma inn til lendingar í Gufudalssveit,“ sagði hann í upphafi máls síns á fundinum. Ráðherra gat þó engin loforð um það gefið hvenær hægt yrði að fara í gangagerð gegnum Hjallaháls.
Þrátt fyrir vonbrigðin var þeim ummælum ráðherra að ekki væri útilokað að fara í þverun Þorskafjarðar samhliða göngum gegnum Hjallaháls fagnað með lófataki.
Nánar er fjallað um fundinn í Morgunblaðinu á morgun.