Fundargestir á opnum íbúafundi um nýjan Landspítala lýstu yfir töluverðum efasemdum um staðsetningu og umfang fyrirhugaðra framkvæmda við Hringbraut. Hafa íbúar meðal annars áhyggjur af sambýli nýju bygginganna við byggðina sem fyrir er á svæðinu.
Verkefnisnefnd, arkitektar og skipulagsyfirvöld héldu stuttar kynningar á fyrirhuguðum nýjum Landspítala en að þeim loknum voru pallborðsumræður þar sem fundargestum gafst kostur á að spyrja spurninga.
Urðu margir til þess að draga í efa valið á staðsetningu nýja spítalans. Þá var rauður þráður í spurningum gesta hversu umfangsmikill nýi spítalinn ætti að vera og lýstu spyrjendur áhyggjum af því að hann myndi flæða yfir gömlu byggðina í nágrenninu.
Var umfangi framkvæmdanna í samanburði við byggðina í kring meðal annars líkt við það að byggja úr Dúplókubbum við hliðina á Legókubbum.