Ferðaklúbburinn 4x4 hefur ákveðið að setja allt gps-ferlasafn sitt á vefinn, en þau gögn hafa ekki áður verið aðgengileg með þessum hætti. Með þessu vill klúbburinn skapa umræðu um hálendisleiðir.
Jón G. Snæland, formaður ferlanefndar F4x4, segir að nauðsynlegt sé að menn átti sig á hvaða leiðir séu til, áður en þeir ákveði að loka þeim. Inni í grunninum eru m.a. leiðir sem hafa verið lokaðar, s.s. leiðin um Vonarskarð og svonefnd Strútsleið.
„Þetta er safn ferðaklúbbsins 4x4 og það er sett inn á vefinn til að skapa umræðu um slóðamálin,“ segir Jón. Starfshópur á vegum umhverfisráðuneytisins sé nú ásamt sveitarfélögum að fjalla um hvaða leiðir skuli vera opnar og hverjum skuli lokað. Ferðaklúbburinn 4x4 hafi tekið þátt í að mæla upp slóða á hálendinu en síðan hafi fulltrúar klúbbsins ekkert fengið að koma að starfi hópsins. Raunar kveðst Jón ekki vita til þess að mikið sé að gerast hjá hópnum, fyrir utan það að nú sé boðað að gagnagrunnur verði tilbúinn árið 2014.
Á vef klúbbsins kemur fram að í fyrsta áfanga eru settar inn sumarleiðir. Í framhaldinu verða sett inn sértækari gps-gögn, t.d vetrarleiðir og leiðir á jöklum.
Jón segist hafa safnað gps-ferlunum á sínum eigin ferðalögum og fengið frá öðrum félögum í klúbbnum. Inni í þeim grunni sem birtur er á vef F4x4 eru m.a. leiðir sem hefur verið lokað, s.s. leiðin um Vonarskarð sem var lokað fyrr á þessu ári og einnig Strútsleið, inn að Strútslaug að Fjallabaki, en sá slóði hefur verið lokaður áratugum saman. Þeir slóðar sem hefur verið lokað verða sérstaklega merktir af F4x4, að sögn Jóns. Þær leiðir sem sannarlega eru lokaðar verði merktar sérstaklega í kortagrunninum. Það sé þó ekki búið að gera. „Við byrjum svona. Það er lítið hægt að fjalla um leiðir ef það er fyrirfram byrjað á að ritskoða þær, eins og almennt hefur verið gert í þessum málum. Það þarf að hafa öll 52 spilin með, öðruvísi er ekki hægt að spila,“ segir hann.
Aðspurður um leið eins og Strútsstíg, sem sannarlega spillti mjög landinu, segir Jón að sú leið sé til á fullt af kortum. „Maður eyðir ekki út öllum leiðum sem mig langar ekki að hafa inni. Það þarf að sýna þessar leiðir á korti. Hún er til dæmis til á Garmin-kortinu og á gömlum kortum. Það verður farið í að merkja þessar leiðir sérstaklega. En það er ekki hægt að gera allt í einu. Við erum nefnilega ekki embættismenn,“ segir Jón.
Minnst inni á skipulagi
Jón fer ekki í grafgötur með að með þessu sé verið að setja þrýsting á umhverfisráðuneytið sem hafi tekið sér ógnarlangan tíma í málið og fjalli auk þess um málið í rangri röð. Áður en hægt sé að loka leiðum verði að mæla upp þær leiðir sem séu til en það hafi ekki verið gert. „Það verður að byrja á byrjuninni,“ segir hann.
En er ekki hætta á að þessi gagnagrunnur leiði til þess að fleiri fari um viðkvæm svæði sem e.t.v. þola ekki meiri umferð?
„Nú er að styttast í frost og það er að styttast í veður. Áður en þessar leiðir verða færar aftur, næsta sumar, þá verður búið að fara í gegnum þetta, að minnsta kosti þær leiðir sem skipta máli,“ segir Jón. Menn fái ekki bara upplýsingar um leiðir úr gagnagrunni F4x4 heldur hafi þeir alls konar tölvutæk gögn og gömul kort sem sýni ýmsar leiðir. Kortagrunnur F4x4 sé þó áreiðanlega með fleiri gögnum en þeir kortagrunnar sem nú er hægt að fá.
Jón bendir á að minnst af hálendisleiðunum sé inni á skipulagi. Lítið hafi gerst í korta- og skipulagsmálum á hálendinu síðustu áratugina. Og þegar einhverjir aðilar hafa verið að vinna að þessum leiðum hefur reglan alltaf verið sú að ritskoða fyrst og ekki sýna hvað er undir. Þar með fá alls konar leiðir enga umfjöllun, þær hafa engan verjanda. Margar af þessum leiðum hafa einhvern tilgang. En það eru líka til leiðir þar sem þrjár leiðir liggja að sama endapunkti og eru nánast samsíða. En til að vita það þarf að vera til einhver grunnur.