Hefði viljað heyra fleiri sjónarmið

Frá fundinum á Patreksfirði í dag.
Frá fundinum á Patreksfirði í dag. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Ég hef fullan skilning á því þegar menn sýna tilfinningar sínar,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í lok fundar um vegamál á Patreksfirði í dag. Þorri fundarmanna gekk af fundi eftir framsögu Ögmundar.

„Ef menn kjósa að ganga af fundi þá gera menn það þótt ég hefði gjarnan viljað heyra sjónarmið fleiri,“ sagði Ögmundur.

Eftir að Ögmundur og sveitarstjórar á svæðinu höfðu ávarpað fundinn í dag stóð einn fundargesta upp og lagði til að íbúar samþykktu yfirlýsingu þar sem lýst væri vonbrigðum með þær hugmyndir sem innanríkisráðherra hefði lagt fram og að baráttunni fyrir láglendisleið yrði haldið áfram. Lagði hann jafnframt til að fundargestir greiddu atkvæði með tillögunni með því að standa upp og yfirgefa salinn. Gerði þorri fundarmanna það.

Eftir útgönguna ávörpuðu þingmenn og nokkrir íbúar fundinn og lögðust þeir alfarið gegn hugmyndum Ögmundar um að endurbæta veginn yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls.

Ögmundur lýsti því yfir í lok fundarins, að hann myndi óska eftir því við Vegagerðina að hafnar yrðu forrannsóknir á hugsanlegum jarðgöngum gegnum Hjallaháls svo hægt yrði að meta hvað þau kæmu til með að kosta. Hann vildi hins vegar ekki gefa nein loforð um slík göng.

Ögmundur hélt einnig fund um sama mál í Bjarkalundi í Reykhólahreppi í gærkvöldi. Fram kemur á Reykhólavefnum, að Ögmundur sagðist þar ekki vera lokaður fyrir neinum hugmyndum varðandi þetta mál þrátt fyrir að hafa nýlega lagt til, að lagður yrði nýr vegur yfir hálsana en jafnframt reynt að fá jarðgöng undir Hjallaháls í samgönguáætlun sem gilda á til 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert