Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Orkubúi Vestfjarða hafi verið óheimilt að senda manni bréf sem bar með sér að hann væri í vanskilum. Á umslaginu var áritunin „...Við viljum bara minna þig á...“ sem einungis er notað þegar viðskiptavinir eru í vanskilum.
Í kvörtun mannsins sagði m.a. að það kæmi engum við nema honum og Orkubúinu hvort hann væri í vanskilum eða ekki. Með þessu bréfi hafi þeir verið að senda út auglýsingu í póstinum að hann stæði ekki í skilum.
Í svarbréfi Orkubúsins sagði m.a. að fyrirtæki sem nefnt er „M ehf.“ hefði annast sendingu bréfsins en það fyrirtæki starfaði samkvæmt innheimtulögum. Hvergi hefði verið vikið að meintum vanskilum á ytra byrði bréfsins. Svo segir orðrétt: „Áletrunin getur vísað til fjölmargs annars en vanskila, svo sem álesturs mælis, nýrrar þjónustuleiðar, óskar um svör við könnun og svo mætti lengi telja. Sú fullyrðing sem fram kemur í bréfi stofnunarinnar og stafar frá kvartanda, að umslag bréfsins beri með sér innihaldið er einfaldlega ekki rétt.
Jafnvel þó komist væri að þeirri niðurstöður að draga mætti þá ályktun um innihaldið, þ.e. tilmæli um greiðslu reiknings sem kominn er fram yfir eindaga, telur umbjóðandi minn sig vera innan marka laga og reglna með sendingunni. Tilmæli um greiðslu ógreiddrar kröfu er ekki miðlun fjárhagsupplýsinga eða aðför að friðhelgi einkalífs.“
Persónuvernd var á öðru máli.
Í ákvörðun hennar segir m.a. að Orkubú Vestfjarða sendi upplýsingar um að reikningar viðskiptavinar séu komnir fram yfir eindaga með almennum pósti í sérstökum umslögum sem eingöngu hafa verið notuð fyrir slík skilaboð.
„Að mati Persónuverndar jafngildir slík aðgerð því að miðla persónuupplýsingum um vanskil viðkomandi til þeirra aðila sem sjá umslögin. Það geta t.d. verið starfsmenn póstburðarþjónustu, nágrannar og menn er koma sem gestkomandi - en ætla verður að flestum sé kunnugt um það til hvers orkubúið hefur notað slík umslög,“ segir í ákvörðuninni.
Þá segir í ákvörðuninni að ekki skuli haga vinnslu persónuupplýsinga sérstaklega til þess að skapa þrýsting á hinn skráða eða valda honum óþægindum að nauðsynjalausu.