Þrír af hverjum fjórum vilja að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarp Stjórnlagaráðs til stjórnarskrár. Flestir vilja að þjóðaratkvæðagreiðslan verði látin ráða úrslitum, samkvæmt nýrri könnun MMR.
MMR kannaði afstöðu fólks til þess hvert hlutverk þjóðaratkvæðagreiðslu ætti að vera við afgreiðslu á frumvarpi Stjórnlagaráðs til stjórnarskrár. Í könnuninni kom fram að töluverður meirihluti eða 75,3% þeirra sem tók afstöðu vildi að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarpið. Af þeim sögðu 47,7% að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar ætti að ráða úrslitum um afgreiðslu frumvarpsins og 27,6% að þjóðaratkvæðagreiðslan ætti að vera leiðbeinandi fyrir Alþingi.
Um fjórðungur, eða 24,7% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar, vildi ekki að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarpið.