Þakkar fyrir að salur Alþingis sé ekki stærri

Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Öflugasta atvinnusköpun ríkisstjórnarinnar felst í því að opna glufu í lögum til að fjölga ráðherrum og aðstoðarmönnum þeirra. Það virðist inngróið í vinstrisinnaða stjórnmálamenn að bera vantraust til embættismanna og þess vegna verði þeir að hlaða í kringum sig heilum sæg af já-bræðrum til að hrinda stefnu sinni í framkvæmd,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni.

Hann segir að þetta hafi Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gert með því að ráða Indriða H. Þorláksson og Svavar Gestsson til starfa undir merkjum ráðuneytis síns, „annan til að eyðileggja skattkerfið og hinn til að gera Icesave-samninga. Hvort tveggja þjóðinni til mikillar óþurftar.“

Þá hafi einnig verið samþykkt á Alþingi að fjölga mætti borgarfulltrúum í Reykjavík í allt að 31. „Til hvers í ósköpunum? Þakka má fyrir að salur þinghússins sé ekki stærri. Ef svo væri hefði Jóhanna & co. flutt tillögu um að fjölga þingmönnum,“ segir Björn.

„Mér blöskrar að með nýjum stjórnarráðslögum skuli aukið vald flutt til forsætisráðherra, sérstaklega nú þegar Jóhanna Sigurðardóttir situr í embættinu. Verri forsætisráðherra hefur þjóðin ekki kynnst. Jóhanna kemur varla í sjónvarp án þess að segja einhverja vitleysu. Það eitt dygði til þess í öðrum löndum að þingflokkur á bak við forsætisráðherra gerði ráðstafanir til að halda eigin virðingu með því að falla frá stuðningi við hinn ósannsögula forsætisráðherra,“ segir Björn á heimasíðu sinni.

Heimasíða Björns Bjarnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert