Jón Gnarr, borgarstjóri, lýsti því yfir í upphafi borgarstjórnarfundar, að hann vonaði innilega að lausn fengist á kjaradeilu félagsráðgjafa við Reykjavíkurborg og að ekki þyrfti að koma til verkfalls þeirra.
Jón óskaði eftir því að fá orðið í upphafi fundarins og sagði það vegna þess að félagsráðgjafar væru á áheyrendapöllum.
Sagðist Jón vilja þakka félagsráðgjöfum borgarinnar fyrir vel unnin störf við erfiðar aðstæður. Sagði Jón ekki hefð fyrir því að borgarfulltrúar blandi sér í kjaradeilur „þótt við óskum ykkur vissulega velfarnaðar og vonum að þetta leysist farsællega,“ sagði hann.
Dagur B. Eggertsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, sagðist vona að viðræður næstu daga við félagsráðgjafa í húsnæði ríkissáttasemjara, yrðu árangursríkar.