Íslandsdeild Amnesty International hvetur fólk til að mótmæla yfirvofandi aftöku Troys Davis í dag kl. 16.00 fyrir utan bandaríska sendiráðið, Laufásvegi 21 í Reykjavík.
Troy Davis hefur verið 20 ár á dauðadeild í Bandaríkjunum fyrir morð sem hann hefur staðfastlega neitað að hafa framið. Nú hafa yfirvöld í Georgíu-ríki ákveðið að hann skuli tekinn af lífi í dag 21. september, segir í tilkynningu frá Amnesty International.
Troy Davis var dæmdur til dauða árið 1991 fyrir morð á lögreglumanni í Savannah í Georgíu-ríki. Hann hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og flest vitna ákæruvaldsins eða 7 af 9, sem báru vitni gegn honum við réttarhöldin, hafa síðar dregið framburð sinn til baka eða gerst sek um mótsagnakenndar yfirlýsingar.
„Grunur leikur á að sum þeirra hafi sætt þrýstingi frá lögreglunni um að gefa framburðinn. Engar áþreifanlegar sannanir hafa fundist gegn Troy Davis og morðvopnið hefur aldrei komið í leitirnar. Þá hefur ekkert erfðaefni fundist sem getur tengt hann við málið. Málið gegn honum byggist einvörðungu á frásögn vitna,“ segir í tilkynningu frá Amnesty International sem berst fyrir afnámi dauðarefsinga um allan heim.