Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, upplýsir á heimasíðu sinni í gærkvöld að lögfræðingur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hafi fyrr um daginn afhent honum stefnu þar sem hann er kærður fyrir meiðyrði í garð Jóns Ásgeirs.
Forsaga málsins er sú að í bók Björns, Rosabaugur, sem kom út fyrr á þessu ári og fjallar um Baugsmálið svonefnt var sagt að Jón Ásgeir hefði verið sakfelldur fyrir fjárdrátt þegar hið rétta var að hann var sakfelldur fyrir meiriháttar bókhaldsbrot.
Björn brást við með því að birta opinberlega afsökunarbeiðni að eigin frumkvæði auk þess sem ummælin voru lagfærð í annarri prentun bókarinnar.
„Þrátt fyrir yfirlýsingu mína og leiðréttingu sem hlaut mikla kynningu og rataði jafnframt inn í 2. prentun bókarinnar hótaði Jón Ásgeir mér strax með meiðyrðamáli og nokkru síðar sagði Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, að stefna hefði verið samin og hún yrði birt mér eftir réttarhlé,“ segir Björn á heimasíðu sinni.