Fólk er á móti hatursáróðri

Fánar samkynhneigðra blakta á lofti.
Fánar samkynhneigðra blakta á lofti. mbl.is/Júlíus

Guðmundur Helgason, formaður Samtakanna '78, segir að málflutningur á borð við þann, sem Friðrik Schram, prestur Íslensku Kristskirkjunnar í Reykjavík, standi fyrir, valdi því að samkynhneigð ungmenni jafnt á Íslandi sem um heim allan líði miklar kvalir og í versta falli fremji sjálfsmorð því einhver prestur segi þeim að tilfinningarnar sem þau upplifa séu ekki Guði þóknanlegar.

„Það eru þung og erfið skilaboð fyrir óharðnaða unglinga. Samtökin '78 hafa ekki stundað að berjast gegn hópum eða félagasamtökum með vopnum og ekki stendur til að byrja á því núna. Við svörum þegar á okkur hallar eða ráðist er á hinsegin fólk. Friðriki finnst fólk vera með fordóma gagnvart sér og sínum skoðunum en það er rangt. Fólk er einfaldlega á móti hatursáróðri, jafnvel þegar hann er kynntur undir rósinni „elskið syndarann en fordæmið syndina“,“ skrifar Guðmundur í yfirlýsingu sem hann hefur sent fjölmiðlum.

Tilefnið er grein, sem Friðrik Schram skrifaði í Fréttablaðið í gær þar sem hann segist ekki hafa sagt að samkynhneigð sé synd eða glæpur en fari hins vegar ekki í grafgötur með þá skoðun, að samlíf samkynhneigðra sé rangt og sú skoðun byggist á kristinni siðfræði eins og hún hafi verið í 2000 ár.

„Miklu púðri er eytt í að reyna að koma í veg fyrir að fólk stundi kynlíf með sama kyni en eitthvað ber minna á mótmælum gegn kynlífi gagnkynhneigðra utan hjónabands, barneignum utan hjónabands, skilnuðum ... ég gæti haldið áfram,“ skrifar Guðmundur. „Allt eru þetta „syndir“ samkvæmt hinni 2000 ára gömlu bók sem sífellt er vitnað í þegar berja skal á samkynhneigðum. Já, berja því það mætti halda að forsvarsmenn kirkjusafnaða eins og Kristskirkjunnar væru í heilögu stríði gegn samkynhneigð. Er kannski auðveldara að berja á hommunum heldur en hinum gagnkynhneigða meirihluta? Má ég minna á að ekki eru allir sömu trúar og margir sem ekki trúa á neinn Guð. Er í lagi að kúga það fólk í nafni sinnar eigin trúar?“

Vefur Íslensku Kristskirkjunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka