Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að ástæða væri til þess að hafa áhyggjur af stöðu efnahagsmála í Evrópusambandinu. Ísland væri þó í miklu skjóli í þeim efnum enda búið að koma sér að mestu út af hættusvæðinu eins og hann orðaði það.
Um breytta stöðu væri að ræða að því leyti að nú væru það einkum utanaðkomandi aðstæður sem gætu haft neikvæð áhrif á efnahagslíf Íslands en ekki aðstæður innanlands.
Í þeim efnum nefndi Steingrímur meðal annars möguleg áhrif ástands efnahagsmála erlendis á útflutningsgreinarnar hér á landi, ferðaþjónustuna og erlendar eignir lífeyrissjóðanna.