Lítið tilefni til bjartsýni

Friðrik Már Baldursson,.
Friðrik Már Baldursson,.

Núverandi hagvöxtur dugir ekki til að ná atvinnuleysinu niður og hagspár gefa lítið tilefni til bjartsýni. Þetta sagði dr. Friðrík Már Baldursson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík á fundi sem haldinn var á vegum stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnunar í morgun. Athuga mætti með að selja opinberar eignir til að draga ú skuldum.

„Ástæða þess að vextir eru háir hér er að það er ekki raunveruleg trú á gjaldmiðlinum, það er ekki raunveruleg trú á stjórn efnahagsmála,“ sagði Friðrik. „Þetta segir ákveðna sögu.“

Hann sagði að hagspá Seðlabanka Íslands byði ekki upp á sérlega mikla bjartsýni. „Maður verður ekkert sérstaklega bjartsýnn að horfa á þetta,“ sagði Friðrik, en 1,5% hagvexti er spáð á næsta ári. „Í ár byggist hagvöxtur að miklu leyti á einkaneyslu. Fjárfesting hefur náð sér á strik en er lág í sögulegu samhengi.“

Hann benti á að 2,5% hagvöxtur dygði ekki til að ná atvinnuleysinu niður. „Að sjálfsögðu myndi maður vilja sjá hann öflugari,“ sagði Friðrik.

Hann sagði að spár bentu til svipaðs ástands á næsta ári. „Atvinnuleysi er mjög hátt í sögulegu samhengi og það má ekki gleyma því að árin 2009 - 2010 fluttu 4000 fleiri Íslendingar frá landinu en fluttu til þess, þetta er líklega um 1,5% af mannafla og hefur áhrif á atvinnuleysistölur.“

Friðrik benti ennfremur á að 40% fyrirtækja væru í vanskilum „Það er mjög mikilvægt að skuldasöfnun stöðvist. En forsendan er hagvöxtur og í spá AGS er reiknað með 2,5 - 3% hagvexti næstu árin. Það mun ekki ganga eftir nema með aukinni fjárfestingu og vexti útflutnings.“

Friðrik benti á að miklar eignir væru í ríkiseigu og athuga mætti hvort ráðstafa mætti þeim í því skyni að lækka opinberar skuldir. „Hið opinbera á gríðarlega miklar eignir og ég myndi vilja sjá meiri umræðu um hver stefnan er í þessum efnum. Áður voru þessar eignir um 30% af landsframleiðslu, núna eru þær um 60%. Þetta er meðal annars til komið vegna þess að ríkissjóður lagði mikið í bankakerfið og á sterkan gjaldeyrisforða. Þessa tölu er hægt að lækka, það er hægt að minnka brúttóskuldir með því að fækka eignum ríkissjóðs.“

Friðrik ræddi einnig erlendar fjárfestingar á landinu. „Flestir þeirra sem vilja fjárfesta hér vilja fjárfesta í auðlindum. Ég skil ekki hvers vegna við treystum erlendum kapítalistum svona illa,“ sagði Friðrik og benti á að þeir íslensku hefðu ekki verið mikils trausts verðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka