„Ég tel að það vanti pólitíska forystu fyrir aðild að Evrópusambandinu. Þá er ég ekki að tala niður einstaklinga sem það eru að gera og reyna að vinna að þessu af heilum hug. Það sem ég er bara að segja er það að ríkisstjórnin hún stendur ekki á bak við þetta og það bara eitt og sér gerir þetta ferli mjög erfitt.“
Þetta kom m.a. fram í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Sagðist hún aðspurð enn vera þeirrar skoðunar að ólíklegt væri að innganga í sambandið yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ingibjörg sagði að ef um hefði verið að ræða ríkisstjórn sem stæði heilshugar að umsókn um aðild að ESB hefði verið um að ræða stefnumótun af hennar hálfu. „Þá hefði verið fólgin í þessu ákveðin stefnumótun og þá hefðu menn unnið í þessa veru og farið auðvitað í ákveðið aðlögunarferli. Það vilja menn ekki.“ Þá lagði hún áherslu á mikilvægi þess að mótuð yrði uppbyggingarstefna til framtíðar. Ef ekki innganga í ESB þá einhver önnur.
„Að ætla sér að fara í einhvern svona leiðangur með klofið bakland og með myntbandalagið í uppnámi, það er ansi á brattann að sækja,“ sagði Ingibjörg. Aðspurð sagðist hún ekki sjá fyrir sér að hægt væri að mynda ríkisstjórn á Íslandi sem stefndi heilshugar að aðild að ESB eins og staðan væri í dag sem aftur gerði ferlið eins veikt og raun bæri vitni.