Fjórða þingið í röð var Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ræðukóngur Alþingis. Þetta kom í ljós eftir að 139. löggjafarþingi var frestað sl. laugardag. Pétur stóð í ræðustól í tæpar 36 klukkustundir á síðasta þingi, kvaddi sér hljóðs alls 830 sinnum og hélt 194 ræður og gerði 636 athugasemdir við ræður annarra.
Næsti maður á lista, Ásbjörn Óttarsson, talaði átta klukkustundum skemur og Birgir Ármannsson talaði í tæpar 23 klukkustundir.
Sjálfstæðismenn vermdu efstu þrjú sætin en í því fjórða var Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks. Vigdís hélt 126 ræður á þinginu og gerði 357 athugasemdir og stóð í rúmar 22 klukkustundir í ræðustól Alþingis.
Þegar litið er yfir lista tíu þeirra sem mest töluðu kemur í ljós að sex sjálfstæðismenn eiga þar sæti og þrír framsóknarmenn. Einn ráðherra kemst á lista yfir efstu menn. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og ræðukóngur til margra ára, er áttundi maður á lista og talaði í tæpar nítján klukkustundir.
Þegar litið er til þeirra sem minnst töluðu sést að Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, hélt sig mest til hlés á síðasta þingi. Hann talaði samtals í 109 mínútur. Aðeins töluðu minna Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem var fjarverandi lengst af þingi en talaði þó í 76 mínútur, og svo varaþingmenn sem stoppuðu stutt við. Nokkrir varaþingmenn töluðu þó mun meira.
Ef frá eru talin Illugi, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, sem fór í barneignarleyfi á þinginu, og varaþingmenn, er sá þingmaður sem næstminnst talaði á 139. þingi Atli Gíslason, sem nú er utanflokka en var lengst af þingmaður Vinstri-grænna. Atli kom 63 sinnum upp í ræðustól og talaði í 162 mínútur. Annar þingmaður sem einnig er utanflokka kemur þar á eftir; Guðmundur Steingrímsson, og talaði litlu lengur eða í 163 mínútur.
Þegar litið er til stöðunnar eins og hún var fyrir septemberstubbinn svonefnda má sjá nokkrar breytingar. Pétur og Ásbjörn voru í tveimur efstu sætunum eftir vorþingið en Birgir Ármannsson hækkaði sig um þrjú sæti, líkt og Vigdís Hauksdóttir.
Að sama skapi lækkuðu þeir á listanum Steingrímur J. Sigfússon, sem fór úr fimmta sæti í það áttunda, og Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sem fór ekki nægilega oft upp í ræðustól til að ræða þau þingmál sem til umræðu voru í mánuðinum því hann féll af lista yfir þá tíu sem mest töluðu á þinginu. Mörður var þó nálægt því en aðeins munaði þrjátíu mínútum á honum og Sigurði Inga Jóhannssyni sem hreppti tíunda sætið eftir vasklega framgöngu í umræðum um stjórnarráðslögin.
Af ráðherrum ríkisstjórnarinnar má nefna að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra talaði í tæpar níu klukkustundir og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í tólf klukkustundir, líkt og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.