Stuðningur við landbúnað aldrei minni

mbl.is/Árni Torfason

Ríkisstuðningur við landbúnað hefur aldrei verið minni en árið 2010. Þetta kemur fram í tölum frá OECD, en samkvæmt þeim dró úr stuðningi við landbúnað á heimsvísu um 18% á síðasta ári. Ríkisstuðningur við landbúnað á Íslandi mældist 48%.

Samkvæmt skýrslu OECD nam ríkisstuðningur við landbúnað í heiminum 227 milljörðum dollara á síðasta ári. Í skýrslunni kemur fram að stuðningur við landbúnað hafi verið að minnka á seinni árum. Stuðningurinn sé aðallega í formi styrkja og innflutningstolla sem hamli frelsi í viðskiptum, en lítið sé gert til að bæta framleiðni og samkeppnishæfni, tryggja sjálfbæra notkun auðlinda eða hjálpa bændum að takast á við áhættu.

Í skýrslunni segir að ríkisstjórnir víða um heim séu að takast á við mikinn halla á fjárlögum og því sé tilhneiging til að lækka styrki til landbúnaðar. Samhliða hafi heimsmarkaðsverð á landbúnaðarvörum hækkað. Í skýrslunni eru þjóðir heims hvattar til að breyta stuðningi við landbúnað með langtímamarkmið í huga.

Samkvæmt skýrslunni er Nýja-Sjáland það land sem er með minnstan stuðning við landbúnað eða 1% (svokallaður PSE-stuðningur). Hlutfallið er 3% í Ástralíu, 4% í Síle, 9% í Bandaríkjunum, 12% í Ísrael og Mexíkó og 16% í Kanada. Meðaltalið í OECD er 16%.

Hlutfallið er komið niður í 22% í Evrópusambandinu, að því er fram kemur í skýrslunni. Mestur er stuðningurinn í Noregi eða 60%. Hlutfallið er 56% í Sviss, 49% í Japan, 48% á Íslandi og 47% í S-Kóreu.

Skýrsla OECD

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert