Ríkisendurskoðandi gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir rangar starfsaðferðir við fjármögnun framkvæmda við hjúkrunarheimili, og segir að hún fresti því að færa kostnað í ríkisbókhaldið.
Skýrsla þar sem fjármögnun fleiri framkvæmda er gagnrýnd er væntanleg í byrjun október. Þar verður meðal annars rætt um Vaðlaheiðargöng og tónlistarhúsið Hörpu, að því er fram kom í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.
Íslenska ríkið ætlar að verja um níu milljörðum króna til framkvæmda við tíu hjúkrunarheimili fyrir aldraða næstu tvö til þrjú ár. Framkvæmdirnar verða fjármagnaðar með láni frá Íbúðalánasjóði, sem er í eigu ríkisins, og ríkið er því í raun að taka lán hjá sjálfu sér.
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi þessa fjármögnunarleið harðlega í hádegisfréttum útvarps og sagði að með henni væri verið að fela kostnað og fegra bókhald ríkissjóðs. Ríkisendurskoðandi tekur undir þessa gagnrýni.
„Það má benda á það að ríkið eignfærir ekki varanlega rekstrarfjármuni í bókhaldi A-hluta ríkissjóðs og að því leyti til er verið að vísa þessum gjaldfærslum til framtíðarinnar,“ sagði Sveinn Arason ríkisendurskoðandi í viðtali við fréttastofu Sjónvarpsins í dag.