Ísland 17. mesta fiskveiðiþjóðin

Ísland er sautjánda umsvifamesta fiskveiðiþjóð heims með 2% af heildarafla. Sjávarafurðir eru um 39% af heildarvirði útflutningsvara landsins en um 25% af heildarvirði útflutnings og þjónustu. Samanlagt virði útfluttra sjávarafurða var 220 milljarðar króna á síðasta ári.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveg á Íslandi en bankinn telur, að útflutningsverðmæti muni halda áfram að aukast.

Í skýrslunni kemur fram, að sjávarútvegur var um 11% af vergri landsframleiðslu árið 2010. Evrópa er stærsti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir, með um 80% hlutdeild og þorskur er verðmætasta fisktegundin, með um 33% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða.

Góð framlegð var af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja árið 2009 og 2010 og horfur 2011 eru góðar, að mati bankans.

Um 87% af árlegum úthlutuðum kvóta eru á hendi 50 stærstu fyrirtækjanna. Um 8.600 manns starfa beint í sjávarútvegi á Íslandi eða um 5,2% af heildarvinnuafli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka