Ný umferðarskilti sem hvetja til lækkunar á umferðahraða verða á næstu dögum sett upp í nágrenni við leik- og grunnskóla í Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi í tilefni af Samgönguviku í Reykjavík.
Fyrsta skiltið var sett upp í dag á lokadegi Samgönguviku. Á skiltunum eru ökumenn hvattir til að sýna nýjum þátttakendum í umferðinni nærgætni og aka af varkárni. Skiltin eru ólík hefðbundnum umferðarskiltum því myndir eftir skólabörn í hverfinu prýða skiltin.
Um leið og biðlað er til ökumanna að sýna aðgát í grennd við skólalóðir nær verkefnið inn fyrir dyr leik- og grunnskóla í hverfunum því nemendur skólanna sjá um hönnun myndanna sem prýða skiltin. Sami texti verður á öllum skiltum „Varúð - Við erum ný í umferðinni“ ef frá eru talin skiltin við Laugalækjarskóla og Réttarholtsskóla „Ungmenni á leið til skóla.“ Verkefnið er tímabundið og er áætlað að skiltin muni vera sýnileg frá lok september til loka nóvember og frá apríl til júní. Ef vel gengur verður uppsetning skiltanna gerð að föstum lið i hverfinu á haustin og vorin, segir á vef Reykjavíkurborgar.
Það er Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis sem hefur frumkvæði að uppsetningu skiltanna.