Fyrrum starfsmenn banka stuðluðu að vexti

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNBC, að hæfileikaríkt fólk sem starfaði í bankakerfinu hefði farið til starfa á nýjum sviðum og það hefði átt sinn þátt í að hjálpa Íslandi út úr kreppu.

Ólafur Ragnar ræddi við Maríu Bartiromo, fréttamann CNBC, um endurreisn efnahagslífsins á Íslandi, aðgerðir í ljósi ákvarðana annarra ríkja, alþjóðlega fjárfestingu og hvernig nýting hreinnar orku hefur skapað viðspyrnu á erfiðum tímum.

Ólafur Ragnar sagði að Íslendi hefði gengið betur að vinna sig út úr kreppunni en nokkur hefði átt von á og Ísland væri áhugavert dæmi um hvernig lönd sem lent hefðu í miklum efnahagslegum erfiðleikum gætu á tiltölulega skömmum tíma unnið sig út úr vandanum.

Ólafur Ragnar sagði að það sem hefði skipt máli fyrir endurreisn Íslands væri að stofnaðir hefðu verið nýir bankar og almenningur í landinu hefði ekki verið gerður ábyrgur fyrir skuldum einkabankanna. Eins hefði lækkun á gengi krónunnar hjálpað íslenskum fyrirtækjum að ná viðspyrnu á ný. Samhliða þessu hefðu íslensk stjórnvöld staðið fyrir umbótum á stjórnkerfinu og það væri mikilvægt að gera það en einblína ekki bara á efnahagsmálin.

Ólafur Ragnar sagði að þegar þenslan var sem mest hjá bönkunum hefðu þeir ráðið til sín fjölda sérfræðinga á ýmsum sviðum, verkfræðinga, tölvufræðinga og fleiri. „Eftir hrunið gátu lítil og meðalstór fyrirtæki skyndilega valið úr stórum hópi sérfræðinga sem störfuðu hjá bönkunum. Þetta eru fyrirtæki í upplýsingatækni, framleiðslu og hátækni. Sum þessara fyrirtækja hafa tvöfaldað starfsmannafjölda á síðustu tvö árum,“ sagði Ólafur Ragnar og sagði að þetta væri ein af ástæðum þess að Ísland hefði náð að vinna sig út úr kreppunni.

Viðtalið við forseta Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert