Styðja ákvörðun um að hlífa Teigsskógi

Samtökin Landvernd, Fuglavernd og Náttúruverndarsamtök Íslands lýsa yfir stuðningi við þá ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra að hlífa Teigsskógi og leggja til vegagerð eftir svokallaðri D-leið í Gufudalssveit með göngum undir Hjallaháls.

Segja samtökin, að þessi leið hafi verið samþykkt af Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra og því sé ekkert til fyrirstöðu að ráðast í hana og bæta þannig strax úr brýnni þörf Vestfirðinga á betri samgöngum með láglendisvegi.

Með þessari úrslausn yrði komið í veg fyrir þau miklu náttúrspjöll sem myndu hljótast af leið B um óspillta náttúru, m.a. eftir Teigsskógi endilöngum og yfir eyjar og sker í mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar í nágrenni tveggja arnarsetra.

Samtökin segjast telja óréttlætanlegt að fórna þessum náttúruverðmætum, sem séu á náttúruminjaskrá, og falli undir lög um verndun Breiðafjarðar, þar eð aðrar leiðir séu fyrir hendi. Göng undir Hjallaháls séu að öllum líkindum ódýrari en leið B þegar búið er að taka tillit til aukakostnaðar, jaðarkostnaðar og umhverfiskostnaðar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert