Umhverfisstofnun gagnrýnir Ferðaklúbbinn 4x4 fyrir að birta GPS-kortagrunn með upplýsingum um vegi, slóða og aðrar akstursleiðir á Íslandi. Sumar þessara leiða séu hættulegar og bannað að aka eftir sumum leiðunum.
„Á dögunum birti Ferðaklúbburinn 4x4 GPS-kortagrunn með upplýsingum um vegi, slóða og aðrar akstursleiðir á Íslandi. Meðal þeirra leiða sem þar eru birtar eru vegir og slóðar sem hefur verið lokað og bannað er að aka eftir. Ennfremur eru sumar þeirra leiða hættulegar. Umhverfisstofnun telur birtingu ferðaklúbbsins á þessum upplýsingum ekki til þess fallna að draga úr akstri utan vega þar sem margir sækja sér upplýsingar um ferðaleiðir á vef klúbbsins.
Stofnunin hefur átt í samstarfi við ferðaklúbbinn, ásamt fjölmörgum öðrum aðilum, í samráðsnefnd umhverfisráðuneytisins um akstur utan vega þar sem unnið er að því að finna leiðir til þess að draga úr akstri utan vega. Meðal þeirra verkefna sem unnin hafa verið í þessum efnum er átak í því að fjarlægja úr GPS-ferðakortum upplýsingar um slóða og vegi sem eru lokaðir. Á vegum ráðuneytisins er starfrækt nefnd sem vinnur að því að gera miðlæga skrá yfir allar löglegar akstursleiðir á Íslandi og telur stofnunin að upplýsingum og ábendingum eigi að koma á framfæri á þeim vettvangi en ekki með birtingu GPS-kortagrunns sem hætt er við að margir muni nota sem ferðakort.
Umhverfisstofnun væntir og vonast til að eiga áfram uppbyggilegt samstarf við Ferðaklúbbinn 4x4 og sem flesta aðila með það að markmiði að draga úr og koma í veg fyrir akstur utan vega,“ segir í fréttatilkynningu.