13 þúsund króna hækkun á álagsgreiðslu

Lögreglumenn voru þungir á brún á félagsfundi sem haldinn var …
Lögreglumenn voru þungir á brún á félagsfundi sem haldinn var um niðurstöðu gerðardómsins. mbl.is/Júlíus

Félagsfundur lögreglumanna um niðurstöðu gerðardóms um kjör þeirra stendur nú yfir í Reykjavík en niðurstaðan var afhent í dag. Þrír skipuðu gerðardóminn og samkvæmt heimildum mbl.is stóðu fulltrúi ríkissáttasemjara og ríkisins að niðurstöðunni en fulltrúi lögreglumanna var henni andvígur.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, kynnti niðurstöðu gerðardómsins á félagsfundi, sem um 100 lögreglumenn sitja. Fundurinn er ekki opinn fjölmiðlum. Lögreglumenn, sem mbl.is ræddi við, segja að í gerðardómnum felist að lögreglumenn fái sömu launahækkanir og aðrir en að auki hækkar álagsgreiðsla um 13 þúsund krónur á mánuði. Þungt hljóð var í viðmælendum mbl.is, sem komu út af fundinum.

Lögreglumenn hafa verið samningslausir í tæpa 300 daga en kjaraviðræðum lögreglumanna og ríkisins var vísað í gerðardóm 1. júlí sl. að kröfu lögreglumanna. Ríkið tilnefndi ekki fulltrúa í dóminn fyrr en nú um miðjan ágúst.

Þrír sátu í dómnum. Samningsaðilar tilnefndu tvo menn hvor í dóminn, einn aðalmann og annan til vara. Auk þess tilnefndi ríkissáttasemjari fulltrúa, sem var formaður.

Lögreglumenn utan við húsnæði ríkissáttasemjara í dag.
Lögreglumenn utan við húsnæði ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert