Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, segir frá því í nýútkominni sjálfsævisögu, sem raunar er gefin út án hans samþykkis, að íslenskur fyrrum samstarfsmaður hans hafi brotist inn í tölvu bresks blaðamanns og þurrkað út gögn sem blaðamaðurinn hafði fengið.
Fjallað er um málið á tæknifréttavefnum Wired.com í dag. Þar segir, að um sé að ræða bandaríska blaðakonu, sem heitir Heather Brooke og starfar hjá breska blaðinu Independent. Hún fékk afrit af bandarísku sendiráðspóstunum 250 þúsund, sem WikiLeaks hóf að birta í nóvember á síðasta ári, upphaflega í samvinnu við nokkra evrópska og bandaríska fjölmiðla.
Brooke fékk afritið hjá Smára McCarthy í byrjun haustsins 2010 en þá hafði Assange ákveðið að gefa breska blaðinu Guardian og nokkrum öðrum fjölmiðlum einkaaðgang að gögnunum. Assange vissi ekki af þessum leka fyrr en ritstjórar Guardian sögðu honum af því á hitafundi þar sem fjallað var um hvernig birta ætti gögnin.
„Ég rannsakaði málið," segir Assange í bókinni. „Það kom í ljós að íslenskur félagi okkar, Smári McCarthy, hafði vissulega deilt efninu með blaðamanni Independent þegar hann var undir miklu álagi. Hann hafði verið beðinn um að vinna við sendiráðsskeytin í stuttan tíma og forsníða þau en, vegna mikils vinnuálags, hafði hann látið hana fá aðgang að skeytunum - í þeirri von að fá aðstoð - undir tilteknum ströngum skilyrðum. Hann braust síðan inn í tölvuna og þurrkaði skeytin út en það kom aldrei í ljós hvort (blaðakonan) hefði afritað þau eða ekki."
Wired segir, að Brooke hafi raunar þegar afritað skjölin á annan netþjón þegar þarna var komið sögu og því var hafi tölvuinnbrotið verið tilgangslaust. Smári, sem hætti störfum hjá Wikileaks á síðasta ári, viðurkenndi í samtali við Wired að hann hefði eytt skránum af netþjóni Brooke en segir að hún hafi gefið honum leyfi til þess að fara inn í tölvukerfi hennar gegnum netið. Hún hafi þó ekki leyft honum að eyða gögnunum.
Smári segist hafa brugðist of hart við þegar WikiLeaks-menn fengu vitneskju um að hann hefði veitt Brooke aðgang að skjölunum. Hann hafi gert þetta mál upp við Brooke síðar.
Brooke fjallar sjálf um málið í nýlegri bók sinni, The Revolution Will Be Digitized. Segir hún að Smári, sem raunar er ekki nefndur í bók Brooke, hafi sagt sér að hann hafi eytt skjölunum vegna þess að hann væri undir miklu álagi og óttaðist um öryggi sitt.
Wired segir, að þetta sé ekki í fyrsta skipti, sem blaðamenn hafi sakað starfsmenn WikiLeaks um tölvuinnbrot. Fyrr á þessu ári hafi bæði New York Times og Guardian lýst grunsendum um að Assange eða einhver tengdur WikiLeaks hefði brotist inn í tölvupósta blaðamanna á þessum blöðum.