Jarðskjálfti átti sér stað um 11 kílómetra norðaustur af Varmahlíð upp úr klukkan eitt í nótt samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Mældist hann 2,7 stig en ekki mun vera algengt að jarðskjálftar eigi sér stað á þessum slóðum.
Fram kemur á fréttavefnum Feykir.is að upptök skjálftans virðist hafa verið nálægt bæjunum Þverá og Grænumýri í Blönduhlíð í Skagafirði og á um 10 kílómetra dýpi.
„Húsbændur í Grænumýri urðu varir við skjálftann sem varaði stutt en svo virðist sem drunur sem fylgdu hafi farið frá norðri til suðurs. Að sögn Kristínar Bergsdóttur húsfreyju var líkt og keyrt hafi verið á húsið,“ segir í frétt vefsins. Ennfremur er haft eftir Kristínu að ekkert hafi þó dottið úr hillum eða farið um koll.