Á annað hundrað jarðskjálfta hefur orðið í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar í dag. Stærsti skjálftinn var stærri en 3 og fannst vel í Hveragerði, Mosfellsbæ og víðar.
Síðustu vikur hefur Orkuveita Reykjavíkur verið að dæla vatni niður í borholur, en talið er að það hafi valdið þessum jarðskjálftum. Veðurstofan segir að Orkuveita Reykjavíkur hafi verið að dæla vatni niður í nýja borholu á svæðinu.
Í fréttatilkynningu frá OR fyrr í þessum mánuði segir að rekstur jarðgufuvirkjunar Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði kalli á að vatni frá virkjuninni sé skilað aftur ofan í jarðlögin, niður fyrir grunnvatn. Í því skyni eru boraðar holur og er leitast við að finna sprungur í jarðlögunum sem taka á móti sem mestu vatni. Þegar góðar og víðar sprungur finnast geta þær tekið á móti gríðarlegu magni. Vatnið virkar þá eins og smurning og dregur þá úr viðnámi í berginu sem getur þá komið á hreyfingu með tilheyrandi smáskjálftum.
Mannvirkjum stafar ekki hætta af skjálftunum og starfsmenn Orkuveitunnar á svæðinu segjast vart verða þeirra varir.
Upphaflega stóð til að hafa niðurrennsli við Gráuhnúka, sem eru rétt við Hveradalabrekkuna. Þar reyndist jarðhiti hinsvegar svo mikill að til athugunar er að nýta jarðhitann þar til orkuframleiðslu. Nú stendur yfir mat á umhverfisáhrifum slíkrar nýtingar.