Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki enn náð samkomulagi um formennsku í þingnefndum á Alþingi. Samkvæmt nýjum þingskaparlögum á stjórnarandstaðan rétt á formennsku í nefndum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, segir viðræður í gangi, en það sé ekki öruggt að stjórnarandstaðan muni nýta sér þennan rétt.
Ný lög um þingsköp Alþingis taka gildi 1. október, en lögin fela m.a. í sér að þingnefndum verður fækkað úr tólf í átta. Lögin gera líka ráð fyrir að auka ábyrgð stjórnarandstöðunnar á þingstörfunum sem m.a. felur í sér að stjórnarandstaðan á rétt á formennsku í nefndum. Formennska fer eftir þingstyrk sem þýðir að Samfylkingin fær þrjá formenn, VG tvo, Sjálfstæðisflokkur tvo og Framsóknarflokkur einn. Gert er ráð fyrir að hver nefnd verði með tvo varaformenn sem skiptist milli flokka eftir þingstyrk.
Ragnheiður Elín sagði að flokkarnir væru að tala saman um þessi mál, en niðurstaða lægi ekki fyrir.
Ragnheiður Elín var spurð hvort það væri einhver vafi á því hvort stjórnarandstaðan myndi nýta sér þann rétt að fá formenn í þingnefndum. „Það fer eftir því hvort þetta verður gert í einhverri alvöru. Það er skilningur á því að ríkisstjórn á hverjum tíma hefur ákveðna forgangsröðun og leggur kapp á að stýra ákveðnum nefndum. Þessu var ætlað að vera þannig að þetta ætti að endurspegla styrk flokkanna á þinginu og þá verður að deila þessu þannig að við fáum þetta val sem málið snýst um. Það er líka sjónarmið að láta nefndarbreytinguna sjálfa duga, en hún er auðvitað mjög mikil.“