Lögreglumenn segjast margir bálreiðir yfir niðurstöðu gerðardóms um kjör lögreglumanna sem var kynnt í dag.
Mbl.is ræddi við lögreglumenn vítt og breitt um landið og var hljóðið ansi þungt í mörgum þeirra en einhverjir höfðu á orði að niðurstaða gerðardóms væri móðgun við störf sín.
Á félagsfundi Lögreglufélags Norðurlands vestra undir kvöld var samþykkt ályktun þar sem segir að fram hafi komið hjá lögreglumönnum, sem sóttu fundinn, að þeir muni ekki taka þessarri niðurstöðu þegjandi og íhugi alvarlega hvort þeir geti hugsað sér að vinna áfram hjá atvinnurekanda sem ekki meti starfskrafta þeirra meir en niðurstaða gerðardómsins sýni.