Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), segir í pistli á vef bandalagsins að opinberar stofnanir geti ekki stundað þann leik að ýta á milli sín útgjöldum og framkalla þannig sýndarsparnað.
Sýndarsparnaður lækkar engan kostnað í raun en íþyngir starfsfólki sem um munar á þeim stað þar sem stakkur er þrengdur hverju sinni. Stjórnvöld verða síðan að taka til sín þann kaleik að ákveða hvað hið opinbera á að gera og hvað ekki, í það minnsta að þora að taka umræðuna," skrifar Guðlaug.
Vísar hún til ummæla forstöðumanna ríkisstofnana á morgunverðarfundinum: „hvað er framundan í opinberum rekstri?“
Fram kom í máli forstöðumanna að sparnaður hjá einni stofnun geti, og hafi reyndar í fjölmörgum dæmum, aukið kostnað annars staðar hjá hinu opinbera.
„Skert starfshlutfall starfsmanna opinberra stofnana, þar sem treyst er á hlutaatvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun er eitt dæmi um slíkt. Annað dæmi er minnkuð þjónusta heilsugæslustöðva, lokanir á smærri sjúkrahúsum og meðfylgjandi annir á Landspítala.
Ein stofnun getur með öðrum orðum sýnt fram á sparnað, án þess að raunveruleg sparnaðaráhrif komi fram í opinberum rekstri."