Varðskipið Þór var afhent Landhelgisgæslu Íslands í Asmar-skipasmíðastöð sjóhersins í Síle í dag.
Andrés Fonzo, forstjóri Asmar-skipasmíðastöðvarinnar, afhenti Landhelgisgæslunni formlega varðskipið en Georg Kr. Lárusson, forstjóri stofnunarinnar, veitti skipinu viðtöku. Að því loknu gengu Sigurður Steinar Ketilsson skipherra og áhöfn um borð í skipið. Staðinn var heiðursvörður og dró skipherra íslenska fánann að húni undir íslenska þjóðsöngnum.
Smíði skipsins hófst fyrir fjórum árum eða í október 2007. Vegna jarðskjálftans í febrúar 2010 og flóðbylgjunnar sem reið yfir í kjölfarið varð seinkun á smíðaferlinu þar sem miklar skemmdir urðu á skipasmíðastöðinni.
Skipinu verður nú siglt til Íslands en áætlað er að það komi til hafnar í Reykjavík 27. október nk.