Félagsráðgjafar og fulltrúar frá Reykjavíkurborg funda enn hjá Ríkissáttasemjara en fundur hófst í morgun. Náist sátt ekki um helgina mun boðað verkfall hefjast á mánudaginn.
Kröfur félagsráðgjafa eru að fá sömu laun og verið er að greiða sambærilegum starfsstéttum innan borgarinnar. Fara þeir fram á 38% hækkun. Launakrafan felur einnig í sér ósk um sanngirni fyrir félagsráðgjafa sem starfsstétt og viðurkenningu á mikilvægi þess starfs sem þeir vinna.
Félagsráðgjafar sem starfa hjá Reykjavíkurborg eru 108 talsins. Þeir starfa flestir hjá þjónustumiðstöðvum borgarinnar, barnavernd og á skrifstofu velferðarsviðs.