Eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun telur að fjármálafyrirtæki eiga við mat á verðmæti annarra aðfararhæfra eigna að miða við markaðsvirði eigna, ekki skattstofn á skattframtali, við útreikning á niðurfellingu skulda samkvæmt 110% úrræði. Taka verði upp öll mál sem þegar hafa verið afgreidd þar sem munur er á skattstofni og markaðsvirði.
Þetta kemur fram í þriðju skýrslu eftirlitsnefndarinnar til efnahags- og viðskiptaráðherra. Nefndin fjallar í skýrslunni ítarlega um framkvæmd skuldaaðlögunar einstaklinga og telur ýmislegt gagnrýnisvert hvernig bankarnir hafa staðið að lækkun skulda. Þó að samræmi sé í því hvernig bankarnir hafi unnið málin hjá sér séu reglurnar ekki samræmdar milli banka og því sé ósamræmi í framkvæmdinni.
Nefndin gagnrýnir að bankarnir skuli við mat á eignum miða við skattstofn á skattframtali en ekki markaðsvirði. Nefndin nefndir sem dæmi mál hjóna sem áttu bíl sem var metinn á 150 þúsund í skattframtali en markaðsvirði hans var 30 þúsund. Eins er nefnt að hjón hafi átt hlutabréf sem voru metin á 500 þúsund í skattframtali en markaðsvirði hlutabréfanna var í reynd 5 milljónir. Þetta leiddi til þess að hjónin fengu meira afskrifað en þau hefðu átt að fá.
„Taka verður upp öll mál sem þegar hafa verið afgreidd þar sem verðmæti annarra aðfararhæfra eigna hefur miðast við skattstofn í skattframtali nema gögn sýni ótvírætt fram á að það verðmæti sé markaðsvirði,“ segir í skýrslu nefndarinnar.
Nefndin vill einnig að fjármálafyrirtæki framkvæmi ítarlegt stöðumat/greiðsluerfiðleikamat hjá öllum viðskiptavinum sem til þeirra leita vegna fjárhagserfiðleika. Þegar slíkt mat liggi fyrir skuli gera viðskiptavini skriflega grein fyrir því hvaða úrræði fjármálafyrirtækið telur henta.
Um sérstaka skuldaaðlögun segir nefndin: „Segja má að úrræðið sé í hálfgerðum skammakrók hjá fjármálafyrirtækjunum. Úrræðið felur í sér mikla vinnu þess fjármálafyrirtækis sem er umsjónaraðili og samvinnu allra kröfuhafa, sem er vissulega flóknara en þegar eitt fjármálafyrirtæki semur við sjálft sig. Mál eru oft flókin sem veldur því e.t.v. að reynt er að beita öðrum úrræðum sem ekki krefjast samninga við aðra kröfuhafa.
Fjármálafyrirtækin virðast vera tilbúin til að veita úrræði sem snúa eingöngu að þeim sjálfum og eru þ.a.l. einfaldari í framkvæmd, þó svo að þau úrræði gagnist eignafólki og/eða þeim sem ekki eiga við greiðsluvanda að stríða. Þessi úrræði einkennast af að vera minna skilyrt en sértæk skuldaaðlögun og geta í einstökum tilvikum jafnvel leitt til meiri niðurfellinga en sértæk skuldaaðlögun.“
Nefndin telur að 110% úrræðið hafi verið útfært of þröngt í samkomulagi bankanna frá 15. janúar 2010 og hefði mátt vera einfaldara og þar með fljótlegra í framkvæmd. Með því að miða við 110% af fasteignamati í stað markaðsvirðis ódýrari eigna, láta aðrar aðfararhæfar eignir ekki dragast frá niðurfærslu að ákveðnu marki og taka upp fríeignamark með fastri fjárhæð, hefði mátt einfalda og flýta málum að mati nefndarinnar.
Nefndin telur sig hafa orðið þess áskynja að fríeignamarkið hafi verið tekið upp vegna þess að ljóst var að það verðmæti annarra aðfararhæfra eigna miðað við fjárhæð á skattframtali gæfi ekki rétta mynd af raunverulegu verðmæti. Tilgangurinn hafi verið að reyna að sníða af vankanta og því óbein viðurkenning fjármálafyrirtækjanna á því að sú aðferð að miða við verðmæti á skattframtali sé röng. „Nefndin bendir á að þetta skapar misræmi og getur leitt til niðurstöðu í einstökum málum sem er röng og í mörgum tilvikum eru þá sambærileg mál afgreidd með ólíkum hætti. Er það óásættanlegt að mati nefndarinnar.
Það sem flækir málið þó enn frekar er að framkvæmdin varðandi fríeignamarkið hefur verið jafn ólík og fjármálafyrirtækin eru mörg,“ segir í skýrslunni.