Tvær rannsóknarnefndir Alþingis og hluti af starfsemi saksóknara Alþingis er flutt inn í húsnæðið við Austurströnd á Seltjarnarnesi sem hýsti áður landlæknisembættið.
Nokkur umræða varð um örlög hússins þegar embættið flutti í hús Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg í byrjun ágúst í kjölfar sameiningar þess við Lýðheilsustöð. Leigusamningurinn sem gerður var við Neshús ehf., eiganda hússins, árið 2002, er óuppsegjanlegur og gildir til ársins 2027. Leiguupphæð í hverjum mánuði er um tvær milljónir króna. Ríkið hefur rétt til að framselja leiguna til annarra og er nú komin ríkisstarfsemi í hluta hússins.
„Þetta eru rannsóknarnefnd sparisjóðanna og rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð. Hvor nefnd er þriggja manna og síðan er gert ráð fyrir að þær þurfi að ráða tímabundið ótilgreindan fjölda starfsmanna. Undir rannsóknarnefndirnar erum við með ríflega helming af efri hæðinni, um 400 af 600 fermetrum,“ segir Karl Magnús Kristjánsson, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis.
Leigusamningurinn verður endurskoðaður eftir þörfum því ekki er vitað hvað nefndirnar starfa lengi. Auk þess gætu fleiri nefndir komið í húsið.
Saksóknari Alþingis er í þremur skrifstofum á neðri hæð hússins, sá leigusamningur er einnig tímabundinn. „Við vorum með aðstöðu fyrir hann í húsnæði sérstaks saksóknara. En hann þurfti að stækka við sig svoleiðis að við tókum þrjár skrifstofur á leigu á fyrstu hæð í húsinu út á Nesi. Leigusamningur er á meðan þarf því við vitum ekkert hvað saksóknari Alþingis starfar lengi,“ segir Karl.