„Einfaldlega til að stöðva viðræðurnar“

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn

Fólk skiptist í miklar fylkingar á Íslandi í umræðunni um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið en þeir „sem eru á móti aðild eru þó fleiri og öflugari en þeir sem eru hlynntir.“

Þetta kom fram í máli rúmenska Evrópuþingmannsins Cristian Dan Preda á fundi utanríkismálanefndar Evrópuþingsins síðastliðinn fimmtudag 22. september en hann fór fyrir nefnd þingmanna á þinginu sem heimsótti Ísland fyrr í þessum mánuði og ræddi við hérlenda stjórnmálamenn, forystumenn atvinnurekenda og launamanna og fulltrúa hreyfinga með og á móti aðild að ESB.

Preda sagði fjóra málaflokka í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í ESB vera sérstaklega viðkvæma samkvæmt frétt evrópsku fréttaveitunnar Agence Europe; landbúnað, peningamál, Norðurskautsmál og sjávarútveg. Þeir væru „kjarni vandamálsins og eru ástæða þess að Ísland hefur frestað umsókn um aðild svo lengi.“

Fram kemur í fréttinni að Preda hafi lýst áhyggjum sínum af því að ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála sem og fjármálaráðuneytið væru í höndunum á fólki sem væri andsnúið aðild að ESB. „Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrann, Jón Bjarnason, er mjög virkur í hreyfingunni gegn ESB og hann sagði við okkur hreint út að hann myndi ekki veita neina heimild til viðræðna um landbúnaðar- og sjávarútvegskaflann, einfaldlega til að stöðva viðræðurnar,“ sagði Preda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert