„Kostnaðurinn sem fellur á ríkið er tvíþættur; annars vegar er það byggingarkostnaðurinn og síðan aukinn kostnaður vegna fjölgunar hjúkrunarrýma,“ segir Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann tekur undir athugasemdir ríkisendurskoðunar við fjárveitingar til framkvæmda við hjúkrunarheimili og segir athugasemdirnar eðlilegar.
„Ég hef orðið áhyggjur af því hvernig bókhald ríkisins er sniðgengið að því sem lýtur að þessum stóru framkvæmdum og eru utan efnahagsreiknings ríkissjóðs,“ segir Kristján Þór og bætir við að verði haldið áfram á þessari braut geti stefnt í óefni.
Íslenska ríkið hyggst verja um níu milljörðum króna til framkvæmda við hjúkrunarheimili fyrir aldraða næstu árin og verða framkvæmdirnar fjármagnaðar með láni frá Íbúðalánasjóði, en hann er í eigu ríkisins. Ríkisendurskoðun segir að ekki sé rétt staðið að fjárveitingum til framkvæmdanna og hvernig þær eru bókaðar. Hefur Sveinn Arason ríkisendurskoðandi m.a. sagt stjórnvöld vera að fresta því að færa kostnað í bókhald ríkissjóðs.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur viðurkennt að verið sé að fleyta kostnaðinum inn í framtíðina og unnið sé að því hvernig gera skuli grein fyrir kostnaði framkvæmdanna í ríkisbókhaldi, kom það fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær.
„Það er byrjað að byggja hjúkrunarheimili á grunni ákvarðana sem teknar voru í fjárlögum árið 2010,“ segir Kristján Þór og undrast af hverju reglur hafi ekki verið mótaðar áður en farið var til verka og áhrif framkvæmdanna leidd fram í ríkisreikningum. „Ef þetta er ekki fegrunaraðgerð [en fjármálaráðherra hefur neitað að um slíkar aðgerðir sé að ræða] þá er þetta tilraun til þess að fara á svig við lög um fjárreiður ríkisins, líkt og ríkisendurskoðun hefur haldið fram,“ segir Kristján Þór. Hann segir fjármálaráðherra ekki geta neitað athugasemdum ríkisendurskoðunar og að óheiðarlegt sé af hálfu ráðherra að bera það upp á ríkisendurskoðun að fara með rangt mál.