Fréttaskýring: Ferlar 4x4 fara um hættuleg svæði

Ferill úr ferlasafni 4x4 fer um hættulegt sprungusvæði á Langjökli, …
Ferill úr ferlasafni 4x4 fer um hættulegt sprungusvæði á Langjökli, merkt rauðu. Kort frá Máli og menningu sýnir slóðann, ekki að á honum sé vað. Svo er um fleiri kort.

Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri Safetravel hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, gagnrýnir Ferðakúbbinn 4x4 fyrir að hafa birt allt ferlasafn sitt á vefnum. Í ferlasafninu séu m.a. birtar leiðir yfir hættuleg sprungusvæði á Langjökli og hætta sé á að einhverjir treysti ferlunum í blindni, enda njóti F4x4 virðingar vegna reynslu og þekkingar félagsmanna.

Landsbjörg og fleiri, m.a. hópur frá F4x4, hefur unnið að því að kortleggja hættuleg sprungusvæði á jöklum. Tilefnið var banaslys á Langjökli í fyrravetur en þar lést kona við fall ofan í sprungu. Vinir og ferðafélagar hennar áttu frumkvæði að kortagerðinni.

Jónas ítrekar að ferlar séu eingöngu hjálpartæki og ekki megi aka eftir þeim í blindni, eins og sumir haldi. Alltaf þurfi að taka tillit til þekkingar og reynslu, kynna sér aðstæður og sprungukort þar sem það á við. „Þarna inni [í gps-safni F4x4] eru því miður ferlar sem fara yfir mjög hættuleg svæði, meðal annars yfir það svæði þar sem banaslysið varð. Við hefðum vissulega viljað að áður en þetta fór í loftið hefðu þeir ferlar verið teknir út sem geta verið hættulegir. Þetta getur leitt til þess að fólk fari eftir þeim í blindni, það má ekki gerast. Þannig að okkur finnst þetta ekki alveg nægilega gott hjá 4x4, hreint út sagt,“ segir hann.

Á vef F4x4 er tekið fram að vetrarleiðir geti breyst og ávallt skal ekið með ýtrustu varúð ef ekið er eftir gps-ferli. Jónas segir að þetta sé gott og gilt en á hinn bóginn sé alls ekki nógu gott að birtir séu ferlar sem liggi yfir þekkt og hættuleg sprungusvæði.

Ekki aðeins gps-ferlar geta verið varasamir, hið sama á við um prentuð landakort.

Verulegt tjón á vafasömum slóðum

Jónas bendir á að landakort sem séu sérstaklega gerð fyrir fólk á ferðalögum sýni „draugaslóða“ sem séu varasamir eða beinlínis stórhættulegir. Þetta á t.d. við kort sem sýnir vað yfir Tungná við Breiðbak en það vað sé stórhættulegt, yfirleitt aðeins farið á haustin og að vetri til og þá aðeins þegar lítið er í ánni. Akstur yfir vaðið sé aðeins á færi öflugustu trukka og reyndustu bílstjóra. „Ég færi ekki þennan slóða,“ segir hann. Hálendisvakt Landsbjargar hafi ítrekað þurft að sækja þangað fólk sem lent hefur í vandræðum. „Þarna hefur orðið verulegt tjón en sem betur fer ekki alvarleg tjón á mönnum.“

Ný sprungkort árlega

Á sprungukortunum á Safetravel eru ekki gefnir upp ferlar en til stendur að setja öruggustu ferlana þar inn. Kortin eru endurskoðuð á hverju ári en eru þó aðeins hjálpartæki. Þegar hafa verið gefin út kort af öllum jöklum nema Hofsjökli og má nálgast þau inni á vefnum Safetravel.is.

Með því að birta ferlasafnið vill F4x4 skapa umræðu og skapa þrýsting vegna áforma um að takmarka umferð á sumum svæðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert