Lögreglumenn geta engu treyst

Lögreglumenn utan við húsnæði ríkissáttasemjara í gær.
Lögreglumenn utan við húsnæði ríkissáttasemjara í gær. mbl.is/Júlíus

Snorri Magnús­son, formaður Lands­sam­bands lög­reglu­manna, seg­ir í pistli á vef sam­bands­ins, að í ljós hafi komið í gær að lög­reglu­menn geti héðan í frá engu treyst sem komi frá stjórn­völd­um þessa lands og skiln­ing­ur stjórn­valda á störf­um þeirra sé eng­inn.

Í pistl­in­um spyr Snorri hver hefði trúað því að nor­ræn vel­ferðar­stjórn, stjórn hinna vinn­andi stétta, fyrsta hreina vinstri­stjórn­in frá stofn­un lýðveld­is­ins Íslands, hefði haft dug í sér til að lít­ilsvirða þá stétt, sem ætlað sé það hlut­verk að halda uppi al­manna­reglu í sam­fé­lag­inu, stemma stigu við af­brot­um og upp­lýsa þau af­brot sem kunni að vera fram­in, líkt og sást við upp­kvaðningu gerðardóms í kjara­deilu lög­reglu­manna við rík­is­valdið í gær.

Niðurstaða gerðardóms­ins var að lög­reglu­menn fái 4,25% launa­hækk­un líkt og samið var um í vor á hinum al­menna vinnu­markaði, auk þrett­án þúsund króna hækk­un­ar á álags­greiðslu.

Snorri seg­ir, að lög­reglu­menn muni nú nota næstu daga til að fara yfir þá stöðu sem upp sé kom­in og í kjöl­farið end­ur­meta stöðu sína gagn­vart rík­is­vald­inu, sem hafi farið fram með offorsi, yf­ir­gangi og vald­boði gegn stétt­inni.

„Lög­reglu­menn eru seinþreytt­ir til vand­ræða, það sanna dæm­in, en lengi má mann­inn reyna!!  Lög­reglu­menn hafa verið reynd­ir um of og hafa ein­fald­lega fengið mikið meira en nóg," skrif­ar Snorri.

Á þriðju­dag­inn munu for­menn lög­reglu­fé­laga og stjórn LL funda um niður­stöðu gerðardóms­ins og ákveða til hvaða aðgerða verður gripið í fram­hald­inu. Stefán Ei­ríks­son, lög­reglu­stjór­inn á höfuðborg­ar­svæðinu, vildi ekki tjá sig um málið þegar eft­ir því var leitað.

Heim­ild­armaður Morg­un­blaðsins inn­an lög­regl­unn­ar seg­ir að færst geti í auk­ana að hraust­ir lög­reglu­menn hringi og til­kynni sig veika í næstu viku og veik­ind­in geti jafn­vel teygst fram á laug­ar­dag, þegar Alþingi verður sett. „Menn eru farn­ir að kenna sér ým­issa krank­leika,“ seg­ir hann.

Pist­ill Snorra Magnús­son­ar

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert