Erato Kozakou-Marcoullis, utanríkisráðherra Kýpur, lýsti stuðningi við umsókn Íslands að Evrópusambandsinu þegar þau Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, áttu fund í New York í gær.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu fer Kýpur með formennsku í Evrópusambandinu á seinni hluta næsta árs þegar búast megi við því að samningaviðræður standi sem hæst um mikilvægustu samningskaflana.
Kozakou-Marcoullis hefur margoft sótt landið heim, meðal annars sem sendiherra gagnvart Íslandi. Að sögn utanríkisráðuneytisins sagði hún á fundinum með Össuri, að Kýpur geti miðlað miklu af reynslu sinni til Íslendinga hvort tveggja í aðildarviðræðunum og sem lítið eyríki innan Evrópusambandsins.
Össur flytur ræðu fyrir hönd Íslands á allsherjarþinginu á mánudag.