Mótmælir aðgerðum gegn köttum

Katta­vina­fé­lag Íslands mót­mæl­ir öll­um fyr­ir­huguðum aðgerðum sveit­ar­stjórn­ar Fljóts­dals­héraðs gegn heim­il­is- og villikött­um á Eg­ils­stöðum og seg­ir þær stang­ast á við dýra­vernd­ar­lög, reglu­gerð um gælu­dýra­hald og dýra­hald í at­vinnu­skyni og samþykkt sveit­ar­fé­lags­ins um katta­hald og gælu­dýra­hald.

Í yf­ir­lýs­ingu Katta­vina­fé­lags­ins, sem Anna Krist­ine Magnús­dótt­ir, formaður, skrif­ar und­ir, er vísað til frétt­ar í Frétta­blaðinu í dag þar sem seg­ir að 1,15% íbúa á Eg­il­stöðum hafi sent und­ir­skrift­arlista til bæj­ar­yf­ir­valda og kraf­ist þess að sveit­ar­fé­lagið taki á kattaplágu í bæn­um.

Í frétt­inni er haft eft­ir Páli Sig­valda­syni, bæj­ar­full­trúa, að látið verði til skar­ar skríða gegn villikött­um seinna í haust og kett­irn­ir veidd­ir í gildru.

Katta­vina­fé­lagið seg­ir hins­veg­ar, að eng­ar slík­ar gildr­ur hafi verið viður­kennd­ar til veiða á villikött­um á Íslandi.

Þá seg­ist Katta­vina­fé­lag Íslands for­dæma þau orð Þór­halls Þor­steins, sem stóð fyr­ir und­ir­skrift­ar­söfn­un­inni, að „það get­ur ekki endað með öðru en að ein­stak­ling­arn­ir grípi bara til eig­in ráða. (...) Það er ekki nema nokk­urra daga verk að út­rýma þessu,"  hef­ur Frétta­blaðið eft­ir Þór­halli.

„Skal hon­um bent á að all­ar at­hafn­ir sem bein­ast gegn dýr­um og fela í sér illa meðferð á þeim stang­ast á við lög og eru refsi­verðar. Verði Katta­vina­fé­lagið vart við eða verði því til­kynnt um slík­ar at­hafn­ir af hans hálfu eða annarra mun Katta­vina­fé­lagið  bregðast við því með kæru til  lög­reglu. Brot á lög­um um dýra­vernd geta varðað allt að tveggja ára fang­elsi," seg­ir í til­kynn­ingu Katta­vina­fé­lags­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert