Kattavinafélag Íslands mótmælir öllum fyrirhuguðum aðgerðum sveitarstjórnar Fljótsdalshéraðs gegn heimilis- og villiköttum á Egilsstöðum og segir þær stangast á við dýraverndarlög, reglugerð um gæludýrahald og dýrahald í atvinnuskyni og samþykkt sveitarfélagsins um kattahald og gæludýrahald.
Í yfirlýsingu Kattavinafélagsins, sem Anna Kristine Magnúsdóttir, formaður, skrifar undir, er vísað til fréttar í Fréttablaðinu í dag þar sem segir að 1,15% íbúa á Egilstöðum hafi sent undirskriftarlista til bæjaryfirvalda og krafist þess að sveitarfélagið taki á kattaplágu í bænum.
Í fréttinni er haft eftir Páli Sigvaldasyni, bæjarfulltrúa, að látið verði til skarar skríða gegn villiköttum seinna í haust og kettirnir veiddir í gildru.
Kattavinafélagið segir hinsvegar, að engar slíkar gildrur hafi verið viðurkenndar til veiða á villiköttum á Íslandi.
Þá segist Kattavinafélag Íslands fordæma þau orð Þórhalls Þorsteins, sem stóð fyrir undirskriftarsöfnuninni, að „það getur ekki endað með öðru en að einstaklingarnir grípi bara til eigin ráða. (...) Það er ekki nema nokkurra daga verk að útrýma þessu," hefur Fréttablaðið eftir Þórhalli.
„Skal honum bent á að allar athafnir sem beinast gegn dýrum og fela í sér illa meðferð á þeim stangast á við lög og eru refsiverðar. Verði Kattavinafélagið vart við eða verði því tilkynnt um slíkar athafnir af hans hálfu eða annarra mun Kattavinafélagið bregðast við því með kæru til lögreglu. Brot á lögum um dýravernd geta varðað allt að tveggja ára fangelsi," segir í tilkynningu Kattavinafélagsins.